Samkvæmt starfsreglum þjóðkirkjunnar er öll notkun á kirkjurýminu er háð samþykki sóknarprestsins og best er að senda honum tölvupóst, þar sem fram koma tímasetningar, til hvers eigi að nota húsnæðið og hver stjórni eða standi fyrir viðburðinum. Sóknarprestur bókar allt það sem fer fram í kirkjunni sjálfri og tilkynnir kirkjuverði, en kirkjuvörðurinn sér um bókanir í safnaðarsal.
Í starfsreglum nr. 822/2000 er kveðið á um ábyrgð á kirkjuhúsum. Þar segir í greinum 7-13:
7. gr. Ábyrgð á helgihaldi í kirkju og öðru því sem þar fer fram er á hendi hlutaðeigandi sóknarprests í samráði við sóknarnefnd…Ábyrgð á starfsemi í safnaðarheimilum og því sem þar fer fram er á hendi umráðanda í samráði við sóknarprest.
8. gr. Kirkjur eru fráteknar til helgra athafna. Má ekkert fara þar fram sem ekki samrýmist helgi þeirra…
10. gr. Safnaðarheimili eru ætluð til almenns safnaðarstarfs. Heimilt er umráðanda að ráðstafa húsnæði safnaðarheimilis með öðrum hætti. Þess skal þó jafnan gætt að ekkert fari þar fram sem samrýmist ekki starfi safnaðarins.
11. gr. Kirkjur og safnaðarheimili skulu auðkennd með táknum kristinnar kirkju.
12. gr. Öll umgengni um kirkjur og safnaðarheimili skal vera snyrtileg. Prýða skal umhverfi eins og kostur er og gæta vel umhirðu og viðhalds í hvívetna. Eigi má geyma í kirkju annað en muni hennar og búnað og hluti er varða safnaðarstarfið….
13. gr. Kirkjur og safnaðarheimili lúta tilsjón prófasts og biskups.