Á aðalsafnaðarfundi Grafarholtssóknar sem haldinn var þann 31. mars. sl. urðu þau tímamót að Níels Árni Lund lét af embætti formanns sóknanefndar. Um leið hætti Níels í sóknarnefndinni. Saga Grafarholtssóknar og Guðríðarkirkju verður ekki sögð án þess að nafns hans sé getið. Níels hefur gegnt embættinu frá 2005, en tók sér hlé frá 2009 – 2015 en kom þá aftur inn sem formaður sóknarnefndar. Níels Árni kom að stofnun sóknarinnar og var forystumaður um byggingu Guðríðarkirkju og sat í byggingarnefnd hennar. Á starfstíma Níelsar hefur starf Guðríðarkirkju eflst mjög og hann hefur verið afar áhugasamur og mikill drifkraftur í starfi sóknarninnar við að breiða út hið heilaga fagnaðarerindi Jesú Krists. Á fundinum voru honum færðar góðar og miklar þakkir og færð að gjöf vatnslitamynd af Guðríðarkirkju auk blómvandar. Á þessum tímamótum þakkar Grafarholtssókn Níelsi heilshugar fyrir hans góða og þýðingarmikla starf sem formanns og safnaðarmeðlims. Grafarholtssókn óskar honum og fjölskyldu hans velfarnaðar og Guðs blessunar í bráð og lengd.