Kæru sóknarbörn í Grafarholtsprestakalli og aðrir íbúar.
Á morgun miðvikudaginn 8. nóvember milli kl. 17:30 – 20:30 ca. munu fermingarbörn úr prestakallinu ganga í hús og safna fé til þess að grafa og byggja vatnsbrunna í Eþíópíu og Úganda. Á þeim slóðum, og víðar raunar, er alvarlegur skortur á vatni og sérstaklega á hreinu vatni. Með tiltölulega litlum aðgerðum er þó hægt að vinna bug á því og um árabil hefur Hjálparstarf kirkjunnar safnað fé til þess verkefnis og hefur það skilað góðum árangri. Árleg söfnun fermingarbarna um allt landa hefur þar reynst veigamikill þáttur en á síðasta ári söfnuðu fermingarbörn í landinu u.þ.þ átta milljónum króna til þess verkefnis. Áður en fermingarbörnin ganga í hús fá þau fræðslu um þennan vanda og hverju söfnun þeirra hefur breytt. Að koma náunga sínum í neyð til hjálpar er kjarni kristins boðskapar og almennrar manngæsku en alls eru um tvö þúsund vers í Biblíunni sem fjalla um það. Við biðjum ykkur um að taka vel á móti þessum glæsilegu, prúðu og duglegu ungmennum þegar þau banka upp á hjá ykkur á morgun.
Bestu kveðjur
Sr. Leifur Ragnar Jónsson
settur sóknarprestur