Félagsstarf fullorðinna er fyrir alla sem eru heima á daginn og vilja verja tíma við fræðslu og uppbyggingu með öðru fólki. Lovísa okkar galdrar fram kaffiveitingar gegn vægu gjaldi , Ester ætlar að spila fyrir okkur skemmtileg lög og við horfum fram á skemmtilegan vetur. Síðasta vetur var Njála lesin og 40 manns úr söfnuðinum fóru í Njáluferð í vor. Nú er röðin komin að Íslandsklukkunni, sem verður lesin í allan vetur. Starfið verður fyrsta og þriðja hvers mánaðar í allan vetur. Fyrsta hvers mánaðar heimsækja ýmsir áhugaverðir gestir söfnuðinn, en þriðja hvers mánaðar verður gripið í spil og fleira. Fyrsti gesturinn 4. september sem heimsækir okkur í vetur er Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra, en rithöfundurinn Andri Snær Magnason kemur líklega til okkar 2. október. Dagskráin hefst klukkan 13:10 með helgistund og Íslandsklukkulesturinn kl. 13:30, síðan kemur söngstund og gestur og loks veislukaffi sem lýkur kl. 15:30. Gestir og viðburðir verða vel auglýstir á heimasíðunni, þannig að það er um að gera að fylgjast með henni og mæta vel. Umsjónarmenn félagsstarfs fullorðinna eru Sigurbjörg Þorgrímsdóttir djáknakandídat og Sigríður prestur.

Bjalla