Í gær fékk Guðríðarkirkja styrk úr Forvarnarsjóði Reykjavíkurborgar til að kynna heimasíðuna „Betri tíð: Upplýsingatorg fyrir atvinnuleitendur“ með veggspjöldum og nafnspjöldum. Síðuna má finna á www.betritid.is og hún er líka á Facebook,“ Betri tíð-Upplýsingatorg fyrir atvinnuleitendur„. Hugmyndin að verkefninu „Betri tíð“ varð upphaflega til í Gáttinni, opnu hús fyrir atvinnuleitendur í Guðríðarkirkju árið 2009, þegar verið var að ræða um hvað upplýsingar um úrræði og tilboð fyrir atvinnuleitendur liggja oft dreift. Sótt var um styrki hjá stéttarfélögum og kirkjusjóðum til að setja af stað heimasíðuna og Steinvör Almý Haraldsdóttir bókasafnsfræðingur tók að sér að setja hana upp og halda utan um hana.
Það getur verið erfitt að vera í atvinnuleit, félagslega, andlega og fjárhagslega og því gott að geta fundið á einum stað gott og gagnlegt nesti í leitinni. Við erum einstaklega þakklát Reykjavíkurborg og öðrum þeim félagasamtökum sem hafa stutt okkur í þessu verkefni og stolt af vinnu Steinvarar.
Kíkið endilega á síðuna ef þið eruð í atvinnuleit. Það væri áhugavert að heyra hvort það sé grundvöllur til að hafa kaffi í kirkjunni fyrir atvinnuleitendur einu sinni í mánuði. Stöndum saman, byggjum félagsauð, útrýmum atvinnuleysi, styðjum hvert annað og hjálpumst að við að gera bið og leit léttbærari.