Á sunnudaginn 18. nóvember kl. 11 verður Guðmundur Sveinbjörn Brynjólfsson vígður til djákna með viðhöfn í Dómkirkjunni, en Guðmundur var nýlega ráðinn til að sinna barnastarfi, æskulýðsstarfi og félagsstarfi fullorðinna í Guðríðarkirkju. Séra Kristján Valur Ingólfsson biskup í Skálholti sér um vígsluna og sr. Sigríður Guðmarsdóttir lýsir vígslu. Vígsluvottar Guðmundar verða séra Sigríður, séra Karl Valgarður Matthíasson, séra Guðmundur Karl Brynjarsson og Ragnheiður Ásgeirsdóttir djákni.
Ekki verður messa í Guðríðarkirkju þennan dag, heldur er sóknarbörnum, starfsmönnum og öðrum velunnurum Guðríðarkirkju boðið að koma í Dómkirkjuna og halda hátíð með okkur í tilefni vígslu hins nýja djákna. Þetta er í fyrsta sinn sem þjónn er vígður til hins unga safnaðar í Grafarholti. Séra Sigríður tekur með sér stimpilinn og stimplar samviskusamlega í helgihaldsbækur fermingarbarna sem vilja sækja heim Dómkirkjuna á þessum hátíðisdegi.
Nánar má lesa um Guðmund og ráðningu hans til djákna hér. Fræðast má um djáknaþjónustu hér.