Kvennaathvarfið stendur fyrir fjáröflunarátaki 10.-23. september til að fjármagna kaup á nýju og stærra húsnæði. Um hundrað konur og börn þeirra flýja í athvarfið undan heimilisofbeldi á ári hverju og nú eru í athvarfinu sjö konur og sex börn. Fjáröflunarátakið felst í að selja litskrúðugar tölur með merki Kvennaathvarfsins. Tölurnar kosta 1000 krónur stykkið og rennur allur ágóði í nýja athvarfið. Nánari upplýsingar um átakið má finna á síðunni www.ollmedtolu.is.
Guðríðarkirkja er með 100 tölur til sölu fyrir Kvennaathvarfið og stefnir á að selja þær allar í næstu viku. Tölur verða seldar í kirkjukaffinu eftir messu 16. og 23. september og á opnunartíma kirkjunnar, þriðjudag til föstudag kl. 10-16.
Nú heitum við á Grafhyltinga, Úlfdæli og öll þau önnur sem vilja leggja okkur lið að koma í kirkjuna og kaupa tölu. 100 tölur fyrir Kvennaathvarfið frá Grafarholti!