Tveir starfsmenn Guðríðarkirkju halda nú til annarra starfa. Árni Þorlákur Guðnason æskulýðsfulltrúi hefur sinnt barna- og æskulýðsstarfi í söfnuðinum frá haustinu 2009, staðið fyrir sunnudagaskóla, 6 ára starfi í frístundaheimili Sæmundarskóla og Ingunnarskóla og stofnsetti æskulýðsfélag Breytenda í Grafarholti.
Berglind Björgúlfsdóttir hefur stjórnað tveimur barnakórum, Geisla og Lilju frá ársbyrjun 2008.
Þau hafa þannig byggt upp allt barnastarf kirkjunnar, Berglind frá því fyrir vígslu kirkjunnar og Árni frá frumbýlingsárunum í hinni nýju kirkju. Bæði eru þau elskuð og virt af börnum og foreldrum og starfið hefur blómstrað undir þeirra stjórn.
Söfnuðurinn óskar þeim Berglindi og Árna velfarnaðar og Guðs blessunar á nýjum vettvangi og þakkar þeim frábært starf í þágu barnanna í Grafarholti og Úlfarsárdal.
Berglind og Árni ætla bæði að koma í fjölskyldumessuna á sunnudaginn kl. 11 og þar gefst krökkunum tækifæri á að kveðja sína góðu starfsmenn og afhenda þeim kveðjugjöf.
Myndin er af Árna Þorláki að halda hugleiðingu á sumardaginn fyrsta 2012.