Sunnudaginn 23 okt. kl. 13 verður fræðsluerindi í safnaðarheimili Guðríðarkirkju. Elín Lóa Kristjánsdóttir mastersnemi í trúarbragðafræðum mun fjalla um rannsókn sína á stöðu kvenna innan Íslam á Vesturlöndum, helstu mýtur og misskilning. Aðgangur ókeypis, allir velkomnir sem hafa áhuga á að kynna sér stöðu kvenna innan Islam.

Í erindinu sýnir Elín Lóa okkur brot af meistaraverkefninu sínu, en því lýsir hún á eftirfarandi hátt:

Meginmarkmið rannsóknar minnar er að skoða og varpa ljósi á upplifanir kvenna innan Islam út frá þeirra eigin orðum og upplifunum.
Viðhorf samfélagsins gagnvart konum innan Islam er ólíkt milli þessara tveggja landa. Viðhorf samfélagsins móta upplifanir kvennana og sjálfsmynd þeirra. Mýtur og fordómar samfélagsins er daglegt brauð þeirra.

Ritgerðin er byggð á eigindlegum rannsóknum og í ferlinu hef ég nýtt mér aðferðarfræði, þekkingarfræði og fræðilegar skírskotanir úr ýmsum áttum. Hún er afrakstur þriggja ára vinnu og hefur að geyma upplifanir, reynslu og álit 16 einstaklinga sem tengjast efninu á einn eða annan hátt. Auk viðtalanna hef ég kynnt mér fræðitexta, texta úr trúarriti Múslíma, Kóraninum, og ýmsar skriflegar heimilidir fræðimanna. Því koma fram ólíkar raddir og skoðanir sem fléttast saman við þær niðurstöður sem koma beint úr gögnunum sem túlkuð eru eftir ákveðnum fræðilegum aðferðum.

Ritgerðin fjallar um rannsókn sem ég gerði var á tveim hópum kvenna sem eiga það sameiginlegt að vera múslímar. Annar hópurinn býr í Danmörku og hinn hópurinn býr á Íslandi. Megintilgangur rannsóknarinnar er að kanna hver reynsla kvennana sjálfra sé af því að vera konur innanIslam. Vettvangur þessi hefur ekki verið rannsakaður á Íslandi áður og er því um tímamótaverk að ræða. Gagnaöflum fór fram á árunum 2009-2011 og voru viðmælendur mínir 12 konur, sex í hverju landi ásamt því að taka viðtöl við 4 aðila sem hafa sérhæft sig í málefnum Islam, tveir aðilar í hvoru landi. Viðmælendur voru valdið með veltiúrtaki. Sú aðferð hentaði vel og gengur út á að einn viðmælandi bendir á næsta og svo framvegis. Gagna var aflað með opnum viðtölum er hljóðrituð voru, afrituð og greind samkvæmt aðferðum eigindlegra rannsóknaraðferða.

Í þessum fyrirlestri mun ég beina sjónum mínum að Islam þó svo trúarleg mismunun og trúarlegt ofbeldi gegn konum eigi sér stað mun víðar, bæði í tíma og rúmi. Konur hafa, á grundvelli kyns, minni völd innan Islam og eru þar af leiðandi minnihlutahópur, vísa ég hér í valdahlutföll en ekki tölfræði. Fyrst skoða ég feðraveldisuppbyggingu Islam og leitast við að sýna fram á að það er í feðraveldiskenningum, í grundvallar uppbyggingu eingyðis-trúarbragðanna, sem rótin að undirokuninni hefur legið í gegnum aldirnar. Ég skoða birtingarmynd trúarbragðaofbeldis og hvaða hópar verða helst fyrir barðinu á því og kynni stöðu kvenna innan Islam. Þær aðferðir sem ég beiti í rannsókninni eru: opin viðtöl við konur innan Islam, annarsvegar á Íslandi og hins vegar í Danmörku, einnig fór ég í vettvangsferðir og gerði þátttökuathuganir. Greining fræðitexta og viðtöl við fræðimenn á sviði Islam eru einnig partur af gagnasöfnun.

Þær aðferðir sem ég beiti í rannsókninni eru: opin viðtöl við konur innan Islam, annarsvegar á Íslandi og hins vegar í Danmörku, einnig fór ég í vettvangsferðir og gerði þátttökuathuganir. Greining fræðitexta og viðtöl við fræðimenn á sviði íslam eru einnig partur af gagnasöfnun.


Ég mun koma inn á helstu mýtur og misskilning varðandi Islam. En mikilvægt er að koma í veg fyrir fordóma sem byggjast á vanþekkingu. Ég mun koma inn á upphaf Islam og hvernig trúarbrögðin urðu til og fóru frá því að vera grasrótarhreyfing og yfir í skipulögð trúarbrögð með veldisskiptingu.