“Bráðum kemur betri tíð” Þemamessa sunnudaginn 21. nóvember er helguð atvinnuleit og atvinnuleitendum
17. nóvember s.l. voru 13,562 á atvinnuleysisskrá á landinu öllu samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar, þar af 9,206 á höfuðborgarsvæðinu, svo mikil þörf er á að halda vel utan um öll þau sem eru á leiðinni til góðrar vinnu. Þess vegna hefur verið ákveðið að helga messu næsta sunnudags í Guðríðarkirkju atvinnuleit og atvinnuleitendum. Bænir, ritningarlestrar og helgihald allt verður tengt þessu málefni sérstaklega. Við hvetjum þau sem eru að leita sér að vinnu og þau sem láta málefnið sig varða til að fjölmenna til messu. Boðið verður upp á gott kirkjukaffi eftir messu.
“Betri tíð” heimasíðan opnuð formlega eftir messu á sunnudaginn
Heimasíðan Betri tíð, www.betritid.is verður formlega opnuð á sunnudaginn, en hún miðar að því að koma upplýsingum á framfæri á sem aðgengilegastan hátt fyrir atvinnuleitendur á höfuðborgarsvæðinu. Það er krefjandi að vera atvinnuleitandi og þau sem leita starfa þurfa að afla sér upplýsinga úr mörgum ólíkum áttum. Hugmyndin að heimasíðunni varð til á fundum fyrir atvinnuleitendur, í Guðríðarkirkju veturinn 2008-2009, þar sem fólki varð tíðrætt um erfiðleika við að leita sér upplýsinga um ráðgjöf, tækifæri, tómstundir og annað sem stendur atvinnuleitendum til boða.Í framhaldi af þessum samtölum spratt upp hugmyndin að setja upp vefsíðu, þar sem atvinnuleitendur hefðu greiðan aðgang að upplýsingum og finndu svör við spurningum um allt hvaðeina sem varðaði stöðu þeirra. Steinvör A. Haraldsdóttir bókasafns- og upplýsingafræðingur, MLIS setti upp vefinn og annast vefumsjón.