Bleiki dagurinn í Guðríðarkirkju 14. mars- Örþing í minningu Mary Daly
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er 8. mars og í fyrra var haldinn Bleikur dagur í Guðríðarkirkju þann sunnudag til að minnast sérstaklega baráttu fyrir mannréttindum kvenna til jafns við karla. Í ár höldum við aftur Bleikan dag fyrsta sunnudag eftir 8. mars sem í ár ber upp á 14. mars. Prédikari í messunni verður Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor við Guðfræðideild Háskóla Íslands en séra Sigríður þjónar fyrir altari ásamt fleiri prestvígðum konum. Séra Sigríður ætlar bjóða upp á súpu eftir messuna því að hún á 45 ára afmæli daginn eftir, 15. mars. Þegar súpuskálin hefur verið tæmd upphefst örþing til minningar um kvennaguðfræðinginn og heimspekinginn Mary Daly sem lést í síðasta mánuði. Daly var frumkvöðull í kvennaguðfræði og mikill snillingur. Erindin verða stutt og hnitmiðuð og ekkert allt of hátimbruð og dagskrá ætti að ljúka kl. 13:45. Allir sem hafa áhuga á jafnrétti og langar til að kynna sér femíníska guðfræðigagnrýni eru eindregið hvattir til að mæta í messu, súpu og/eða örþing.Fundarstjóri örþingsins verður Laufey Brá Jónsdóttir leikari, BA í guðfræði og nemandi í mannauðsstjórnun sem var um tíma æskulýðsfulltrúi Guðríðarkirkju. Frummælendur á örþinginu eru:
—Dr. Sólveig Anna Bóasdóttir dósent við Guðfræðideild HÍ sem fjallar um Mary Daly og kenningar um ofbeldi gegn konum,
—Hildur Björk Hörpudóttir, BA í guðfræði og MA í kynjafræði fjallar um þá femínísku guðfræðinga sem Daly var mest í samræðu við.
—Séra Hanna María Pétursdóttir en hún skrifaði lokaritgerðina sína í guðfræðideildinni um Mary Daly 1981 og ruddi þannig braut íslenskra Dalytúlkana. (Séra Hanna María býr á Patreksfirði og kemur ef hún mögulega getur).
—Dr. Sigríður Guðmarsdóttir fjallar síðan um Daly í ljósi nýrra femínískra kenninga svo sem Judith Butler.