Biblíuleshópur í kirkjunni hefst miðvikudaginn 17. febrúar kl. 19:45
Biblíuleshópur fer af stað í kirkjunni á miðvikudagskvöldum og hefst 17. febrúar. Leshópurinn verður á hverjum miðvikudegi nema þá daga sem vængjamessan er. Í fyrstu tveim samverunum mun séra Sigríður segja frá Biblíunni og tilurð hennar, en þvínæst verður tekið til við að rýna í texta og ræða um þá. Fyrsta bók Biblíunnar sem lesin verður í hópnum er Rutarbók sem margir þekkja, en þvínæst tekur Prédikarinn við. Fólk þarf að koma með sína eigin Biblíu og gaman væri að hafa bæði nýjar og gamlar Biblíur við hendina, því mikill munur er á þýðingunum. Allir eru velkomnir í hópinn, ekki er þörf á neinni sérstakri Biblíuþekkingu og maður þarf ekki að vera mjög trúaður til að vera með. Biblíulesturinn tekur klukkutíma og kortér en klukkan tíu er sunginn náttsöngur.
Lions stendur fyrir kynningarfundi í kirkjunni 11. febrúar kl. 20
Lionsklúbburinn Úlfar rekur mikið og gott starf í þágu hverfisins. Klúbburinn tekur þátt í jólatrésfagnaðinum 1. desember og brennunni á þrettándanum og er að fara af stað með verkefni gegn einelti sem nýtast mun á landsvísu. Lions verður með kynningarfund á starfi sínu 11. febrúar í safnaðarheimili Guðríðarkirkju og verður gaman að fylgjast með þessu flotta og frábæra félagsstarfi.
Passíusálmalestur á föstudaginn langa- leitað að lesurum
Passíusálmarnir hafa verið lesnir á föstudaginn langa í söfnuðinum frá upphafi. Mörgum finnst gaman að spreyta sig á sálmunum, sumir taka einn, aðrir tvo eða fimm. Sumir eru allan lesturinn sem tekur fjóra tíma, aðrir vilja fá sálm í upphafi eða endi og allt er þetta sniðið að þörfum hvers og eins. Við óskum eftir sjálfboðaliðum í lesturinn og eru þeir beðnir að hafa samband við séra Sigríði. Sálmarnir eru til á tölvutæku formi á www.kirkjan.is og koma upp þegar smellt er á flipann “Trúin og lífið” sem finna má í vinstra horni heimasíðunnar.
Aðalsafnaðarfundur 28. febrúar eftir messu
Í lögunum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar 1997 nr. 78 26. maí, 52. grein segir um aðalsafnaðarfundi:
52. gr. Aðalsafnaðarfund skal að jafnaði halda fyrir maílok ár hvert. Þar skulu rædd málefni sóknarinnar, þar á meðal þau mál sem lögmælt er að undir fundinn séu borin, svo og þau mál sem héraðsfundur, sóknarprestur, prófastur, biskup Íslands eða kirkjumálaráðherra skýtur þangað. Aðalsafnaðarfundur er vettvangur starfsskila og reikningsskila af hendi sóknarnefndar og einstakra nefnda innan sóknarinnar.
Aðalsafnaðarfundur fer með ákvörðunarvald innan sóknarinnar í málum þeim sem undir fundinn heyra samkvæmt lögum eða lögmæltum ákvörðunum.
Aðra safnaðarfundi skal halda ef meiri hluti sóknarnefndar óskar þess eða einn fjórði hluti sóknarmanna sem atkvæðisrétt eiga á safnaðarfundum.
Sóknarmenn njóta kosningarréttar og kjörgengis á safnaðarfundum þegar þeir eru fullra sextán ára.
Aðalsafnaðarfundur Grafarholtssóknar verður haldinn 28. febrúar eftir messu og hefst messan kl. 11. Á fundinum verða reikningar og fjárhagsáætlun borin upp og sagt frá starfinu á yfirstandandi ári. Allir sóknarmenn eru velkomnir á fundinn og hvattir til að mæta og kynna sér starf og reikninga.