„Einhverjir munu minnast þess að á árinu 2008 var Guðríðarkirkja vígð. Fyrir mig var það stór stund og hafði meiri áhrif á mig en ég bjóst við,“ segir Níels Árni Lund, sóknarnefndarformaður í janúarpistli sínum. Pistilinn í heild má lesa að baki „Áfram“-smellunni.
Yfir hverri eykt á jörðu/ englar Drottins halda vörð./ Dúnmjúkt lífsins dægur falla/ dropum lík, í rakan svörð./ Árin seytla, eins og lindir/ aldir hníga, líkt og fljót./ – eilífðin sem úthaf bíður/ allra tíma stefnumót.
Þeim, sem fara villir vegar/ veittu, Drottinn, stundargrið/ – iðrast lát þá illsku sinnar,/ öllum heimi veittu frið./ Drjúpa láttu daggir náðar,/ Drottinn, hjarta þess, er kól./ – Drottinn gæða, Drottinn hæða/ Drottinn allra hnatta sól.
Tvö erindi úr ljóðinu Áramót eftir Stefán frá Hvítadal
Ágætu nágrannar í Grafarholti og Úlfarsárdal! Gleðilegt ár til ykkar allra og jafnframt stórar þakkir liðnu stundirnar. Já þau líða eitt og eitt í aldanna skaut árin okkar, – hvort heldur við lítum til út á við eða til okkar eigin lífs. Hvert hefur sína sérstöðu og mörg árin meitlast í hugann, …árið sem ég … og verða viðmið síðar á lífsleiðinni.
Einhverjir munu minnast þess að á árinu 2008 var Guðríðarkirkja vígð. Fyrir þá sem næst stóðu framkvæmdum var það mikill sigur og mikill ánægjudagur. Fyrir mig var það stór stund og hafði meiri áhrif á mig en ég bjóst við. Ég var einfaldlega hrærður þann dag og fyrir utan sjálfa vígsluathöfnina sem var einstaklega hátíðleg, – reyndar svo mjög að eftir var tekið í öðrum sóknum, er mér ekki síður minnisstætt að standa frammi fyrir um hundruðum nágranna minna og ávarpa þá í kaffiboði eftir vígsluna ásamt fjölda kærkominna og góðra gesta. Ég fann samhug, velvilja og þakkir fólksins og það snart mig. Maðurinn er nú einu sinni þannig gerður að honum finnst gott að fá klapp á bakið og sannarlega höfum við sem að byggingunni stóðum fengið slíkt klapp og þakkir frá fjölda aðila. Mér er minnisstætt að við stutta helgistund á Gamlársdag í kirkjunni heilsaði ég vinum mínum frá fornu fari sem ég hef ekki hitt lengi. Ég spurði hvernig þeim fyndist kirkjan. Hún er dásamleg var svarið og augu vina minna ljómuðu af einlægni, – og svo bættu þau við; við erum svo stolt af ykkur. Já kirkjan okkar er komin, – svona er hún og svona verður hún öllum til sóma.
Með tilkomu hennar breytist safnarðarstarfið og verður öflugra og sýnilegra.
Á tímum margháttaðra erfiðleika er það sannfæring okkar kristinna manna að orð Guðs og kenningar Krists séu leiðarljós sem vísa okkur réttan veg. Megi Guðríðarkirkja verða sóknarbörnum sínum þar til leiðsagnar og aðstoðar um alla framtíð. nál.