Fullt var út úr dyrum þegar Guðríðarkirkja í Grafarholti var vígð, annan sunnudag í aðventu. Fjölda mynda frá athöfninni má nú finna á vefnum.
Fullt var út úr dyrum þegar Guðríðarkirkja í Grafarholti var vígð, annan sunnudag í aðventu. Athöfnin hófst með því að biskupar, prestar og djáknar Reykjavíkurprófastdæmis eystra, sóknarnefnd, byggingarnefnd, starfsmenn kirkjunnar og kórar hennar gengu til kirkju með helga gripi hennar.
Kirkjukór og barnakór Grafarholtssóknar sungu við athöfnina undir stjórn Hrannar Helgadóttur og Berglindar Björgúlfsdóttur. Organisti var Hrönn Helgadóttir. Auk þeirra tóku Hljómskálakvintettinn, Agnes Amalía Kristjónsdóttir sópransöngkona og Kristjana Helgadóttir þverflautuleikari þátt í tónlistarflutningi.
Við vígsluna voru frumfluttir tveir vígslusálmar sem kirkjunni bárust að gjöf, annar er ortur af safnaðarfulltrúa sóknarinnar, Sigurjóni Ara Sigurjónssyni og hinn af sóknarpresti. Jón Ásgeirsson tónskáld gerði lagið við fyrrnefnda sálminn og gaf Guðríðarkirkju í vígslugjöf.
Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, vígði kirkjuna og predikaði við vígsluna en sóknarprestur, dr. Sigríður Guðmarsdóttir, þjónaði fyrir altari. Kirkjan var sem fyrr segir þétt setin og voru kirkjugestir á öllum aldri. Eftir vígsluna var öllum boðið í veglegt kirkjukaffi að Gullhömrum í Grafarholti. Þar greindi formaður sóknarnefndar, Níels Árni Lund, frá sögu kirkjubyggingarinnar.
Sr. Árni Svanur Daníelsson og sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir á upplýsingasviði Biskupsstofu tóku fjölda mynda við athöfnina og má nú finna þær á vef Þjóðkirkjunnar með því að smella hér.
Yfirlit yfir helgihaldið fram undan í Guðríðarkirkju má lesa hér.