„Alveg er ótrúlega stutt síðan boðað var til fyrsta safnaðarfundar í sókninni og sömuleiðis örstutt síðan við fengum okkar sóknarprest. Þegar ég horfi þessa stuttu leið til baka finnst mér við hafa verið leidd áfram af æðri mætti“ segir Níels Árni Lund í októberpistli sínum.

„Alveg er ótrúlega stutt síðan boðað var til fyrsta safnaðarfundar í sókninni og sömuleiðis örstutt síðan við fengum okkar sóknarprest. Þegar ég horfi þessa stuttu leið til baka finnst mér við hafa verið leidd áfram af æðri mætti“ segir Níels Árni Lund í októberpistli sínum. Pistillinn fer hér á eftir:

Hann gekk yfir torg með kross á blóðrisa baki,/ og brennandi sólin varpaði geislum á fjöldann,/ sem stóð á vegkanti Vía Dolorosa/ og virtist sefjað af meistarans fótataki,/ en margur í hópnum reyndar taldi sig tregan/ til þess að létta þær byrðar er vafalaust kvöldu´ ann./ Þeir héldu máske það mætti alls ekki losa/ mann við þann kross, sem gerð hann ódauðlegan.

(Úr bókinni – Ljóð langföruls. Sturla Friðriksson.)

Já, Kristur lifir og boðskapur hans. Við sem búum í Grafarholti þekkjum þann boðskap og viljum rækta hann og efla. Því erum við að byggja okkur Guðshús til að geta átt þar helgar stundir og erum farin að bíða í eftirvæntingu eftir að vígsluhátíðin renni upp.

Alveg er ótrúlega stutt síðan boðað var til fyrsta safnaðarfundar í sókninni og sömuleiðis örstutt síðan við fengum okkar sóknarprest. Þegar ég horfi þessa stuttu leið til baka finnst mér við hafa verið leidd áfram af æðri mætti. Allt starfið hefur gengið svo vel, þar á meðal kirkjubyggingin. Ekki síst er það sóknarprestinum okkar sr. Sigríði Guðmarsdóttur að þakka sem hefur miðlað okkur vitneskju og sjálfstrausti sem ómetanlegt er. Það er ekkert sjálfgefið að eining ríki innan sóknarnefnda né heldur gagnkvæm virðing og samvinna við sóknarprest, en því láni hefur söfnuðurinn okkar átt að fagna og vona ég að svo verði áfram.

Enn og aftur hvet ég alla íbúa Grafarholts til að kynna sér starfið og taka þátt í því, starfinu og þeim sjálfum til ánægju og þroska. Í reynd er söfnuðurinn sjálfur kirkjan og því öflugri og samhentari sem við erum, því traustara verður allt starfið. Ég hef áður nefnt að okkur vantar áhugasamt fólk í kórinn sem við ætlum að hafa kraftmikinn og góðan. Kórstjórinn og organistinn okkar Hrönn Helgadóttir hefur sýnt mikinn dugnað við erfiðar aðstæður og kórinn er öflugur kjarni sem við ætlum að styrkja. Enn skal áréttað að við leitum til safnaðarfólks í von um að einhverjir sjái þarna tækifæri á skemmtilegu áhugamáli. Það hlýtur að vera nokkuð spennandi að takast á við sönginn við vígslu kirkjunnar þann 7. desember. Ég minni ykkur hér með á að taka þann dag frá og vera viðstödd þann hátíðlega og stóra atburð í hverfinu okkar.

nál.