Leiklistarhópur fyrir börn í 3. bekk í Grafarholtssókn er tekinn til starfa undir stjórn Laufeyjar Bráar, leikkonu og æskulýðsfulltrúa kirkjunnar. Þátttaka er vonum framar.
Leiklistarhópur fyrir börn í 3. bekk í Grafarholtssókn er tekinn til starfa undir stjórn Laufeyjar Bráar, leikkonu og æskulýðsfulltrúa kirkjunnar. Þátttaka er vonum framar. Börnin virðast vera full tilhlökkunar að túlka biblíusögur.
Æfingar eru í sal Ingunnarskóla á mánudögum kl. 14:15 og hófst starfið mánudaginn 22. september.
Leikhópurinn ber nafnið Leikandi lærisveinar og er hluti af því æskulýðsstarfi sem fram fer í vetur á vegum Grafarholtssóknar. Mun leikhópurinn vera með sýningar í Guðríðarkirkju í vetur og munum við auglýsa þær sérstaklega hér á heimasíðunni.
Umsjónarkona starfsins er Laufey Brá Jónsdóttir, leikkona og leikstjóri sem einnig hefur B.A. próf í guðfræði og stundar mastersnám í mannauðsstjórnun. Hún hefur mikla reynslu af leikstjórn og síðasta verk hennar var að setja upp Litlu Ljót í Hafnarfjarðarleikhúsinu nú á vordögum, þar sem um 60 börn úr forskóla Tónlistarskóla Hafnarfjarðar létu ljós sitt skína við góðar undirtektir.
Nauðsynlegt er að skrá þau börn sem vilja taka þátt í starfinu í vetur. Það er gert með því að fylla út þetta skráningarblað og skila því til Laufeyjar í næsta leiklistartíma. Öllum börnum í 3. bekk í Grafarholti stendur til boða að skrá sig í kirkjustarfið sér að kostnaðarlausu. Engin börn taka þátt, nema samþykki foreldra liggi fyrir. Allar nánari upplýsingar veitir Laufey í síma 695-5323 eða með rafpósti: laufey@grafarholt.is.