Barna- og æskulýðsstarfi Grafarholtssóknar í vetur lauk á sumardaginn fyrsta. Myndir úr starfinu og úr vorferðalagi er að finna á myndavef kirkjunnar.
Barna- og æskulýðsstarfi Grafarholtssóknar í vetur lauk á sumardaginn fyrsta. Myndir úr starfinu og úr vorferðalagi er að finna á myndavef kirkjunnar.
Það var að vanda líf og fjör í sunnudagaskólanum, þar sem yngri börn í hverfinu og foreldrar þeirra komu saman, alls 24 sinnum, horfðu á brúðuleikrit, sungu saman og heyrðu Biblíusögur. Auk þess voru mánaðarlegar fjölskylduguðsþjónustur, alls átta sinnum, þar sem sunnudagaskólinn og messan sameinuðust í fjölmennar fjölskylduhátíðir.
Litlir lærisveinar, hópur fyrir sex ára börn, hittust svo í Fjósinu, frístundaheimili Sæmundarskóla, vikulega í vetur eða alls 29 sinnum. Börnin lærðu helstu frásagnir úr ævi Jesú og dæmisögur hans og eftir áramót einnig nokkrar sögur úr Gamla testamentinu, þau lituðu biblíumyndir og fóru í leiki.
Æskulýðsstarfið í samstarfi við KFUM & KFUK á Íslandi fór fram í tveimur deildum í vetur, yngri deild KFUM fyrir 9-12 ára stráka og yngri deild KFUK fyrir 9-12 ára stelpur. Hvor deild hafði 27 fundi í vetur með alls konar dagskrártilboðum, leikjum, bingói, leynigestum og ferðalögum, og helgistund með sögu úr Biblíunni var á hverjum fundi. Fjölmargar myndir úr KFUM & K-starfinu í vetur má finna með því að smella hér.
Hlé var gert á unglingastarfi í sókninni í vetur en vonandi verður framhald á því næsta vetur.
Samstarf kirkjunnar við skólana í hverfinu, og nú í vetur einnig frístundaheimili Sæmundarskóla, hefur verið ótrúlega gott þau ár sem söfnuðurinn hefur starfrækt barna- og æskulýðsstarf. Það er ekki sjálfgefið að kirkjulaus söfnuður geti boðið upp á 105 samverur fyrir börnin í hverfinu yfir veturinn, heldur er þar að þakka velvilja skólayfirvaldanna um afnot af skólahúsnæðinu utan skólatíma. Þá eru ótaldar um 50 æfingar Barnakórs sóknarinnar, sem hefur starfað af kappi í vetur og æft vikulega bæði í Sæmundarskóla og Ingunnarskóla, fyrst undir stjórn Gróu Hreinsdóttur en eftir jól undir stjórn Berglindar Björgúlfsdóttur. En tilhlökkunarefni er, að um jól verður kirkjan okkar fullbúin og barna- og æskulýðsstarfið getur að stórum hluta færst í hana.
Sunnudagaskólinn, Litlir lærisveinar og Barnakór fóru í vorferðalag og æfingabúðir laugardaginn 5. apríl sl. Fjölmargar myndir úr ferðinni má finna með því að smella hér.