Á hlaupársdag, 29. febrúar sl., hélt Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts vel heppnað og vel sótt málþing um hverfasamstarf. Margar góðar hugmyndir um samstarf og eflingu félags- og hverfisvitundar komu fram og verður gaman að sjá hvað úr verður.
Á hlaupársdag, 29. febrúar sl., hélt Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts vel heppnað og vel sótt málþing um hverfasamstarf.
Meðal þeirra sem fluttu erindi var Eyjólfur Darri Runólfsson, Grafarholtsbúi og fulltrúi Ungmennaráðs Árbæjar og Grafarholts, sem fræddi þátttakendur málþingsins um starfsemi Ungmennaráðsins. Eftir erindin var síðan gengið til málstofa sem var skipt eftir hverfum. Tvær málstofur fjölluðu um Grafarholt, önnur út frá forvörnum, foreldrasamstarfi og samfellu í skóla og frístundastarfi en hin gerði félagsauði, íbúalýðræði og umhverfismálum skil.
Margar góðar hugmyndir um samstarf og eflingu félags- og hverfisvitundar komu fram og verður gaman að sjá hvað úr verður. M.a. datt fólki í hug að stofna ferðafélag Grafarholts, sem myndi standa fyrir stuttum ferðum út í okkar dásamlegu náttúru sem er rétt við túnfótinn hjá okkur, safna upplýsingum um örnefni, gönguleiðir og sögu. Önnur hugmynd fjallaði um að það væri gaman að götur tækju sig saman um að hafa götuhátíð og grillveislu til að efla andann og nágrannakærleikann. Þá geta börn, unglingar og fullorðnir sameinast um að spila saman fótbolta, borða góðan mat og njóta þess að vera til í samfélagi. Og nú er bara að sjá hvaða gata ríður á vaðið og heldur fyrstu grillveisluna í sumar.
Myndir frá málþinginu og frekari fréttir af því má sjá á heimasíðu Þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts.