„Við vorum tveir á fundi og rætt um “milljónasamning”. Á vissum tímapunkti segir viðmælandinn mér að nú standi þannig á að hann þurfi að biðja um hlé á fundinum þar sem nú sé komið að bænastund.“ Þetta kemur fram í sögu sem Níels Árni Lund sóknarnefndarformaður segir í febrúarpistli sínum, sem fjallar um gildi trúariðkunar.

„Við vorum tveir á fundi og rætt um “milljónasamning”. Á vissum tímapunkti segir viðmælandinn mér að nú standi þannig á að hann þurfi og biðja um hlé á fundinum þar sem nú sé komið að bænastund.“ Þetta kemur fram í sögu sem Níels Árni Lund sóknarnefndarformaður segir í febrúarpistli sínum, sem fjallar um gildi trúariðkunar. Pistillinn kemur hér á eftir:

Þitt orð er, Guð, vort erfðafé,

þann arf vér bestan fengum.

Oss liðnum veit til lofs það sé,

að ljós við þess vér gengum.

Það hreystir hug í neyð,

það huggar slá í deyð.

Lát börn vor eftir oss

það erfa blessað hnoss.

Ó, gef það glatist engum. Martin Luther / Helgi Hálfdánarson

Trú er hverjum manni nauðsynleg. Hún er hins vegar af mismunandi toga og trúarsiðirnir sömuleiðis. Við sem erum kristinnar trúar erum sannfærð í okkar trú og þannig á það að vera. En hvernig ræktum við okkar kristnu trú og hvernig miðlum við henni áfram? Er það kannski svo að við kjósum að fara dult með hana og – ég þori varla að nefna það,- en getur verið að við skömmumst okkar fyrir að játa opinberlega kristna trú? Mér dettur í hug að segja ykkur sögu af bróður mínum sem býr erlendis, á þar stórt fyrirtæki og sinnir viðskiptum um allan heim. Hann sagði mér eftirfarandi: „Ég var staddur í fjarlægu landi í hörðum samningaviðræðum við valdamikinn forstjóra. Við vorum tveir á fundi og rætt um “milljónasamning”. Á vissum tímapunkti segir viðmælandinn mér að nú standi þannig á að hann þurfi að biðja um hlé á fundinum þar sem nú sé komið að bænastund.“ Hann tekur fram að bróður mínum sé velkomið sitja áfram og vera hjá sér á skrifstofunni, en eins geti hann farið fram, kjósi hann það, og fengið sér kaffisopa á meðan. Hann kaus að sitja áfram og hugsaði með sér að hann hefði gott af því að sjá hvernig þessi athöfn færi fram. Þarna sá hann þennan valdamikla mann taka af sér skó, þvo sér um hendurnar og andlit, leggjast á hnén og biðja. Skömmu síðar stóð hann á fætur og settist aftur að samningaborði. Minn maður var hugsi. Hann spurði sjálfan sig á meðan á athöfninni stóð: “Hvað um mig, hvernig játa ég mína trú og hvernig varðveiti ég og rækta þá trú sem mér er svo mikilvæg”? Hann sá ekki eftir að hafa setið og fylgst með. Þessi athöfn snart einhvern streng í brjósti hans; fékk hann til að hugleiða hvort hann gæti ekki gert eitthvað betur og hlúð að þeim þætti sem honum er svo dýrmætur; trúnni á Jesú Krist.

Hvað fyndist okkur ef einhver í miðju samningaferli bæði um frest til að fara með Faðir vorið – eins sjálfsagt og það ætti að vera? Höfum í huga að ekki er langt síðan skipshafnir fóru saman með sjóferðabænir þegar ýtt var úr vör og lengst af lásu Íslendingar húslestra og fjölskyldan fór daglega saman með sínar bænir upphátt í lágum baðstofum.

Er þetta ekki eitthvað til að hugleiða?

nál