„Samskipti á heimilum, jafnt sem vinnustöðum verða nánari, fólki þykir vænna um hvert annað og ég held jafnvel að við gefum okkur meiri tíma en oft áður að sinna börnum okkar“ segir Níels Árni Lund sóknarnefndarformaður um aðventuna í desemberpistli sínum.
„Samskipti á heimilum, jafnt sem vinnustöðum verða nánari, fólki þykir vænna um hvert annað og ég held jafnvel að við gefum okkur meiri tíma en oft áður að sinna börnum okkar“ segir Níels Árni Lund sóknarnefndarformaður um aðventuna í desemberpistli sínum í Fréttabréfi Grafarholtssóknar. Pistillinn fer hér á eftir.
Englakór frá himnahöll/ hljómar yfir víða jörð./ Enduróma fold og fjöll,/ flytja glaða þakkargjörð.
Hirðar, hví er hátíð nú,/ hví er loftið fullt af söng?/ Hver er fregnin helga sú,/ er heyrir vetrarnóttin löng?
Kom í Betlehem er hann,/ heill sem allri veröld fær./ Kom í lágan, lítinn rann/ lausnara þínum krjúptu nær.
Jakob Jónsson.
Mikil Guðsblessun er fyrir okkur að fá að halda jól með allri þeirri tilhlökkun, undirbúningi og birtu sem þeim fylgir. Aðventan er gengin í garð og boðar okkur að senn gangi hin eiginlega jólahátíð í garð og kominn sé tími fyrir okkur að undirbúa heimili okkar, fjölskyldu og okkur sjálf fyrir þá hátíð sem helguð er frelsara okkar Jesú Kristi. Þrátt fyrir skammdegismyrkur fer að birta í húsum og á götum, jólaljósum fjölgar og gefa hátíðlegan svip. Meira að segja held ég að þrátt fyrir allan undirbúninginn og amstrið, búðarrápið og baksturinn, fylgi þessum tíma ákveðinn friður. Samskipti á heimilum, jafnt sem vinnustöðum verða nánari, fólki þykir vænna um hvert annað og ég held jafnvel að við gefum okkur meiri tíma en oft áður að sinna börnum okkar, lesa fyrir þau, segja sögur og syngja jóla- og jólasveinalög fyrir þau. Börnin skynja að eitthvað er í nánd og bíða spennt jólanna. Þetta er veruleg tilbreyting á dimmasta tíma ársins hér á landi. Margir hafa þann sið að heimsækja ákveðna aðila einmitt á þessum tíma, setjast niður, fá sér kaffi og smákökur og spjalla saman og þá gjarnan er rifjaðar upp góðar endurminningar frá horfnum jólum, og þessi tími er einnig tíma sátta og fyrirgefningar.
Hápunktur kirkjulegs starfs er framundan og sífellt fjölgar þeim sem koma til kirkju um jólin. Aðventutónleikar eru víða haldnir og aðrir slíkir list- og menningarviðburðir og kirkjan hefur opið fyrir slíkum atburðum. Hæst rís þó messusóknin um sjálfa jólahátíðina þegar allar kirkjur fyllast af fólki sem meðtekur boðskap jólanna í samfélagi kristinnar kirkju. Ég tala af reynslu hve það getur orðið ríkur þáttur í jólahaldinu að fara til kirkju á jólunum. Þessi góði siður erfist til barna og barnabarna og verður ómissandi hluti af jólahaldinu að ógleymdu því að boðskapur jólanna er grundvallarþáttur í lífi kristinna manna.
Grafarholtsbúum og öðrum lesendum Fréttabréfsins eru hér með fluttar hugheilar jólakveðjur safnaðarstjórnar og sömuleiðis er íbúum Grafarholts færðar óskir um gleðilegt nýtt ár og þakkir fyrir allt samstarf á árinu sem er að líða.
Guð gefi okkur öllum gleðilega jólahátíð. nál.