Kveikt var á ljósum jólatrésins við kirkjulóðina að kvöldi fullveldisdagsins og var það mikil hátíð. Nú hefur hins vegar borið á því að börn í hverfinu geri sér leik að því að brjóta perurnar á trénu og ræna það þannig ljósum sínum.
Grafarholtsbúar söfnuðust saman að kvöldi fullveldisdagsins eins og venjulega og kveiktu á jólatrénu. Borgarstjóri Reykjavíkurborgar, Dagur Eggertsson kveikti á trénu og spjallaði við hverfisbúa. Borgin hefur lagt okkur til bæði tré og ljós undanfarin ár, en Lionsklúbburinn Úlfar heldur utan um verkefnið af miklum myndarskap og elju. Foreldrafélag Ingunnarskóla gaf þeim sem að lögðu leið sína að trénu þetta kvöld heitt kakó og tveir hressir jólasveinar sáu ljósin og komu og hittu krakkana. Það var fjölmennt við tréð eins og venjulega, allir sungu jólalög og jólasálma og munu skólinn og leikskólinn nota tækifærið og dansa kringum tréð líka þegar dregur nær jólum.
Það er hins vegar hryggilegt til þess að vita að börn hafa gert sér leik í því að brjóta perurnar á trénu, svo að okkar glitrandi jólatré hefur misst talsvert ljóma sinn á nokkrum dögum. Það er full ástæða til þess að foreldrar brýni fyrir börnum sínum að ganga vel um tréð svo það geti haldið áfram að veita okkur gleði í náttmyrkrinu, sömuleiðis að nágrannar og vegfarendur skipti sér af börnum sem eru að skemma tréð. < ?xml:namespace prefix = o ns = "urn:schemas-microsoft-com:office:office" />