Litlu lærisveinarnir, starf Grafarholtssóknar fyrir sex ára börn í samstarfi við Fjósið – frístundaheimili í Sæmundarskóla, er fjölsótt og samverurnar líflegar á þriðjudögum.
Litlu lærisveinarnir, starf Grafarholtssóknar fyrir sex ára börn í samstarfi við Fjósið – frístundaheimili í Sæmundarskóla, er fjölsótt og samverurnar líflegar á þriðjudögum.
Yfir 30 börn eru nú skráð í starfið, hefur fjölgað jafnt og þétt í haust og er það framar væntingum starfsmanna kirkjunnar. Þó að unnið sé í nánu og góðu samstarfi við starfsfólk Fjóssins þurfa foreldrar að skrá börn sín sérstaklega í kirkjustarfið og það fer fram í annarri stofu en vanalegt starf Fjóssins. Kirkjustarfið er líka öllum sex ára börnum opið, ekki bara þeim sem hafa pláss í Fjósinu, en það þarf að skrá börnin.
Hópurinn hittir leiðtogana Sigríði Ástu og Þorgeir kl. 15 á þriðjudögum í um 45 mínútur. Á samverunum heyrum við sögu úr Biblíunni og litum mynd um hana, syngjum saman hreyfisöngva, förum í leiki og lærum bænir. Það er mikið fjör á þessum stundum enda krakkarnir skemmtilegir og ærslafullir en jafnframt áhugasamir og ljúfir. Vegna stærðar hópsins verður frá og með næstu viku unnið í tveimur hópum á sama tíma.
Nokkrar myndir úr starfinu eru nú komnar hér inn á myndasíðu kirkjunnar og fleiri bætast við í vetur. Foreldrar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að fylgjast vel með.