Það er líf og fjör í starfi KFUM og KFUK í Grafarholtssókn og krakkarnir fást við fjölbreytt verkefni, svo sem knattspyrnu, barmmerkjagerð og hæfileikakeppni. Bæn og Guðs orð er ávallt haft um hönd í starfinu.
Það er líf og fjör í starfi KFUM og KFUK í Grafarholtssókn og krakkarnir fást við fjölbreytt verkefni, svo sem knattspyrnu, barmmerkjagerð og hæfileikakeppni. Bæn og Guðs orð er ávallt haft um hönd í starfinu.
Grafarholtssókn leggur áherslu á að bjóða upp á uppbyggilegt æskulýðsstarf í söfnuðinum í samvinnu við KFUM & KFUK á Íslandi, og vonandi er að börn og foreldrar taki því fegins hendi. Starfið er opið öllum börnum í 4.-7. bekk (9-12 ára) og það er alls ekki of seint að byrja enda fimm skipti eftir fram að jólafríi.
Strákarnir í KFUM hittast á svæði 4.-5. árs í Ingunnarskóla kl. 17:15-18:30 á fimmtudögum. Þeir hafa að undanförnu unnið að verkefninu Jól í skókassa, föndrað sér barmmerki, farið í alls konar leiki, bingó og spurningakeppni, svo eitthvað sé nefnt. Stelpurnar í KFUK hittast á nákvæmlega sama tíma á fimmtudögum en á svæði 6.-7. ársins í Ingunnarskóla. Þær hafa líka unnið að Jólum í skókassa og barmmerkjagerð en auk þess haft glæsilega hæfileikakeppni, náttfatapartý og farið í ratleikinn Amazing Race!
Bæði strákar og stelpur kepptu svo á knattspyrnumóti KFUM & KFUK um síðustu helgi og lentu Grafarholtsstúlkurnar í 2. sæti meðal KFUK-deilda, en árangur KFUM-drengjanna var nokkru lakari. Mestu skipti þó að allir voru ánægðir með skemmtilegan dag.
KFUM og KFUK-starfið í Grafarholti hefur sérstaka heimasíðu þar sem má finna allar upplýsingar um það, leiðtogana og dagskrána framundan. Þar er líka myndasíða starfsins sem vert er að skoða, enda hefur mikið verið tekið af myndum á fundunum nú í haust.