Náms- og skemmtiferð fermingarbarnanna í Grafarholti í Vatnaskóg 11.-12. október sl. heppnaðist vel og voru krakkarnir einstaklega prúðir.
Krakkahópurinn, sem fermist í Grafarholtssókn næsta vor, hélt í Vatnaskóg á fimmtudaginn, 11. október, og kom aftur á föstudagskvöldinu, 12. október, eftir vel heppnaða dvöl. Með í för voru um 40 fermingarbörn ásamt fermingarfræðurunum séra Petrínu, séra Sigríði og Þorgeiri.
Í Vatnaskógi dvöldu börnin við bæði leik og fræðslu. Þar fóru fram fjórar af kennslustundum fermingarfræðslunnar, þar sem fjallað var um Hallgrím Pétursson, um Biblíuna, bænina og kirkjuna, og auk þess farið í skemmtilegan messuratleik, þar sem krakkarnir kynntust nokkrum af liðum guðsþjónustunnar með óhefðbundnum hætti. Frjáls tími gafst einnig til leikja og skemmtunar í íþróttahúsinu, til að fara út á bát á Eyrarvatninu, skella sér í heita pottinn eða bara slappa af og spjalla saman á herbergjunum. Fermingarbarnamótinu lauk með helgistund í Hallgrímskirkju á Saurbæ í Hvalfirði á heimleiðinni.
Mót þetta var sameiginlegt með Tjarnaprestakalli, og dvöldu því á sama tíma í Skóginum fermingarbörn úr Ástjarnarsókn í Hafnarfirði og Kálfatjarnarsókn á Vatnsleysuströnd. Hópurinn var því stór, alls yfir 90 börn, en í Vatnaskógi er gistiaðstaða fyrir um 100 börn auk starfsfólks. Var mál manna að hóparnir hefðu blandast vel og reyndar að krakkarnir hefðu upp til hópa staðið sig með mikilli prýði. Sérstaklega var um það rætt, hve drengirnir hefðu verið óvenjuprúðir og áhugasamir, þó að auðvitað gildi það um stúlkurnar einnig. Fermingarfræðararnir þakka fyrir skemmtilega ferð og óska foreldrunum til hamingju með að eiga svo frábæra krakka!