Næsti sunnudagur, 14. október, verður helgaður umhverfismálum í helgihaldi Grafarholtssóknar. Fjölskyldumessa verður í Ingunnarskóla kl. 11 undir yfirskriftinni „Græni dagurinn“ og mun umhverfisráðherra koma í heimsókn í messuna.
Líkt og seinasta vetur renna sunnudagaskóli og messa safnaðarins saman í stóra fjölskyldumessu í sal Ingunnarskóla annan sunnudag hvers mánaðar. Hér er um að ræða einfaldar stundir með söng og töluðu máli, sem ætlunin er að höfði til breiðs aldurshóps. Sigríður prestur leiðir fjölskyldumessurnar ásamt Þorgeiri sunnudagaskólaleiðtoga, við flygilinn situr barnakórstjórinn Gróa Hreinsdóttir og oftar en ekki syngur Barnakór Grafarholtssóknar einmitt fyrir söfnuðinn.
Fjölskyldumessa októbermánaðar fer fram á 19. sunnudegi eftir þrenningarhátíð, sunnudagsmorguninn 14. október í Ingunnarskóla. Hún verður sérstaklega tileinkuð umhverfisvernd og náttúru og ber yfirskriftina „Grænn dagur í Grafarholti.“
Umhverfisráðherra, frú Þórunn Sveinbjarnardóttir kemur í heimsókn og spjallar við börnin um það sem við getum gert til að draga úr mengun. Fólk er beðið um að koma með endurvinnanleg blöð og fernur til messunnar. Við hittumst við grenndargámana á horni Maríubaugs og Kristnibrautar, við norðurenda Ingunnarskóla, kl. 10:45, og byrjum messuna á að skila endurvinnsludótinu í grenndargámana. Svo er gengið frá gámunum til Ingunnarskóla og þá getur messan hafist. Margt skemmtilegt verður um að vera í messunni, barnakórinn syngur og við bæði syngjum saman og heyrum um sköpun Guðs. Rebbi refur og Engilráð andarungi eru umhverfisvinir, en hvort þau mæta á svæðið í „platskjánum“ sínum kemur í ljós á sunnudaginn!
Auður Angantýsdóttir sér um að gefa öllum djús og kex eftir messuna og svo verður líka litastund. Allir krakkar fá biblíumynd til að lita og nú fá sunnudagaskólabörnin loksins langþráðan límmiðann fyrir blaðsíðu 6 í Kirkjubókinni, sem við vorum að geyma fram að þessum degi sköpunar og umhverfis. Það eru allir hjartanlega velkomnir í fjölskyldumessuna, bæði stórir og smáir, og gaman væri að sjá sem flesta vini náttúrunnar og umhverfisins mæta á svæðið.