Barnastarf KFUM og KFUK í Ingunnarskóla fer fram á fimmtudögum í samstarfi við Grafarholtssókn. Þátttakan er góð en alltaf geta fleiri bæst í hópinn.
Strákar í 4.-7. bekk hittast í KFUM kl. 17:15-18:30 á fimmtudögum á svæði 2 í Ingunnarskóla og stelpur á sama aldri hittast í KFUK á sama tíma en á svæði 3 í Ingunnarskóla. Tveir fundir eru nú búnir af vetrarstarfinu og mættu síðasta fimmtudag um 15 strákar í KFUM en um 40 stelpur í KFUK.
Hver fundur hefst með stuttri helgistund þar sem sögð er saga úr Biblíunni, nú í haust undir yfirskriftinni „Sögurnar sem Jesús kunni,“ en síðan tekur dagskrá fundarins við. Síðasta fimmtudag heyrðu krakkarnir söguna um sköpun heimsins. Síðan var karamelluspurningakeppni á dagskránni hjá KFUM en bingó hjá KFUK. Enginn fór tómhentur heim þann daginn! Nánar má lesa um þetta hérna og myndir úr starfinu má skoða hérna.
Næsta fimmtudag fara strákarnir í bingó en stelpurnar í náttfatapartý og eiga þær að mæta á fundinn í náttfötum! Enn geta fleiri krakkar bæst í hópinn. Nóg er að mæta á staðinn og skrá sig hjá leiðtogunum. Það kostar ekkert að mæta á fundi. Nánari upplýsingar, svo sem dagskrá haustsins og nöfn leiðtoganna, má finna hér.