Klukkurnar í Guðríðarkirkju koma frá Þýskalandi og bera nöfn að gömlum sið og á sr. Sigríður Guðmarsdóttir sóknarprestur heiðurinn af nafngiftinni. Nafngiftin vísar í sálminn:“Dýrð í hæstum hæðum“ eftir Friðrik Friðriksson:
Dýrð í hæstum hæðum,
himna Guð, þér syngja
allir þínir englar og
öll þín hólpin jörð.
Jörð það endurómar,
allar klukkur hringja,
fagnandi hjörtu færa þakkargjörð.
Klukkurnar þrjár segir sr. Sigríður „standa fyrir hæstar hæðir, jörðina og fagnandi hjörtu mannanna. Stærsta klukkan er himnaklukkan, klukka ómælisgeimsins og fagrahvelsins þar sem englarnir syngja Guði dýrð. Miðklukkan með öllum lífverum jarðarinnar enduróma þessa lofgjörð til skapanda lífsins. Og minnsta klukkan táknar manneskjurnar sem bregðast við gjöf lífsins og andans með þakkargjörð. Þannig undirstrika klukkurnar þrjár lífmiðlæga heild þar sem manneskjan tekur þátt í dýrðarsöng fagrahvels og jarðar. “